Ljósmyndasafn Reykjavíkur: Augnablik af handahófi
föstudagur, 14. janúar 2022
Ljósmyndasafn Reykjavíkur: Augnablik af handahófi
„Augnablik af handahófi“ í Ljósmyndasafni Reykjavíkur
Sýningin „Augnablik af handahófi“ er byggð upp á sjónrænum þáttum sem safnað er saman úr safneign Ljósmyndasafns Reykjavíkur og textum sem fengnir eru úr prentuðum ritum. Þannig er sýningin tilbúningur þar sem sýningarstjórinn Yean Fee Quai stillir saman raunverulegum ljósmyndum og ótengdum bókmenntum. Sýningin verður opnuð í Ljósmyndasafni Reykjavíkur laugardaginn 15. janúar og er hún hluti af Ljósmyndahátíð Íslands (www.tipf.is).
Á síðustu 40 árum hefur Ljósmyndasafn Reykjavíkur safnað meira en sex og hálfri milljón ljósmynda. Í safneigninni eru myndir teknar af atvinnuljósmyndurum og áhugamönnum sem hafa náð að mynda það sem fyrir augu ber, atburði og uppákomur, fræga einstaklinga jafnt og alþýðufólk, venjur, hversdagsleg fyrirbæri og allt það sem hægt er að ná á mynd. Safnið fær ljósmyndir og filmur frá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum, sem berast í kössum og skjalaskápum og hafa fyrir löngu fyllt takmarkað geymslurými þess.
Myndavefur safnsins, sem aðgengilegur á heimasíðu Ljósmyndasafnsins, er lagður til grundvallar sýningargerðinni. Þegar myndir eru sóttar á myndavefinn með hjálp ákveðinna leitarorða, birtast ófyrirséðar samsetningar ljósmyndaðra augnablika. Hvert þeirra er er einstakur fjársjóður og þau tengjast í gegnum orð við myndaleit.
Öfugt við myndavefinn, sem notast við algóritma, var leitað á gamla mátann að texta til notkunar með myndunum—brot úr textum úr útgefnu efni, sem ýmist kallast á við, eða renna saman við sjónrænu frásögnina. Hvort sem það eru myndirnar sem mynda samhljóm við textana, eða orðin sem vísa í myndirnar, kallar þessi meðvitaða tilraun fram samræmi eða ósamræmi þarna á milli.
Sýningin er stef við nýútgefið afmælisrit Ljósmyndasafns Reykjavíkur, NÆTUR SEM DAGA, en safnið fagnaði 40 ára starfsafmæli sínu árið 2021. Nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér á vef safnsins – https://borgarsogusafn.is/ljosmyndasafn-reykjavikur/syningar/augnablik-af-handahofi
Ljósmynd - Eggert Claessen / úr safni Soffíu Jónassen Claessen (1873-1943). Skráningartexti: Um 1900, ungur karlmaður tekur mynd af sjálfum sér í spegli. Eggert Claessen. Sennilega með myndavél unnustu sinnar og síðar eiginkonu, Soffíu.