top of page

Litla Gallerý: Mjóna - Margrét Jóna Þórhallsdóttir - Einkasýning

508A4884.JPG

miðvikudagur, 24. nóvember 2021

Litla Gallerý: Mjóna - Margrét Jóna Þórhallsdóttir - Einkasýning

Helgina 26. - 28. nóvember n.k. verður einkasýning á verkum Mjónu - Margréti Jónu Þórhallsdóttur í Litla Gallerý Strandgötu 19 Hafnarfirði.

Árið sem ég fermdist fór ég með fjölskyldunni minni til Kýpur. Á fallegri strönd fann ég í flæðarmálinu lítinn stein og varð hann síðar upphafið af verkum mínum sem ég kalla Steina. Ég tók með mér heim nokkra af þeim litríku, fallegu steinum sem ég fann þarna á ströndinni en þeir voru allt öðruvísi en steinarnir í fjörunni heima á Íslandi. Steinarnir eru minningar um skemmtilega ferð og hafa fylgt mér allar götur síðan. Einn af þessum litlu steinum varð að skissum, grafík- og olíumálverkum árið 2005 þegar ég stundaði nám við Kennaraháskóla Íslands. Allt frá þeim tíma hefur mig langað til að vinna meira með þessa hugmynd og gera stærri verk og halda sýningu á þeim.

Í Steina verkunum leitast ég við að vinna með jafnvægi. Í lífinu er mikilvægt að finna, ná og halda jafnvægi. Mín leið til að finna jafnvægi er að njóta náttúrunnar, gefa litlu hlutunum gaum og lifa í núinu. Mikil orka er talin búa í steinum og sumir segja að steinar hafi áhrif á menn, bæði líkama og sál. Þegar ég sé stein þá sé ég fegurðina í honum og ef ég tek hann upp og skoða hann betur þá sé ég enn meiri fegurð. Það er eins og sérhver rispa og misfella sé handmáluð á hann. Við erum heppin að búa í svona fallegum heimi. Við megum ekki gleyma því að staldra við og líta í kringum okkur. Í verkunum vinn ég með fjöruborð og steina. Ég leik mér með línur, liti og lífræn form. Til að myndbyggingin verði þægileg og spennandi fyrir augað reyni ég að ná ákveðnu jafnvægi. Ég vinn verkin í akríl og olíu og leik mér að því að taka það smáa og stækka upp til að ná fram annarri upplifun.

Margrét Jóna Þórhallsdóttir er fædd árið 1976 og ólst upp í Njarðvík. Hún útskrifaðist sem stúdent af mynd- og handmennta braut frá Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 1998. Margrét Jóna lauk námi, sem myndmenntakennari frá Kennaraháskólanum árið 2005 og af Hönnunarbraut frá Iðnskólanum í Hafnarfirði árið 2015. Hún hefur unnið sem myndmenntakennari bæði í leik- og grunnskólum. Margrét hefur sótt nokkur námskeið í olíumálun þar á meðal hjá Þuríði Sigurðardóttur. Sýningin Jafnvægi er hennar fyrsta einkasýning.

Áhugaverð sýning framundan og allir velkomnir !

Opnunartímar eru eftirfarandi:

Föstudag: 15:00 - 20:00
Laugardag: 12:00 - 16:00
Sunnudag: 13:00 - 17:00


Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page