top of page

Listasafn ASÍ: Opið fyrir umsóknir - Það er gaman að lifa

508A4884.JPG

fimmtudagur, 6. janúar 2022

Listasafn ASÍ: Opið fyrir umsóknir - Það er gaman að lifa

Listasafn ASÍ auglýsir eftir þátttakendum í verkefninu ÞAÐ ER GAMAN AÐ LIFA.

17. júní 2021 voru sextíu ár liðin frá stofnun Listasafns ASÍ. Af því tilefni hyggst safnið gefa út allt að tíu veggspjöld eftir tíu unga myndlistarmenn/hönnuði sem fjalla um helstu brennandi baráttumál samtímans. Efni veggspjaldanna er ætlað að tala inn í samtímann með myndmáli sem allir skilja.
Safnið kallar eftir umsóknum og velur allt að tíu unga hönnuði og myndlistarfólk á aldrinum 20-30 ára til að taka þátt í vinnustofu um gerð veggspjalda. Notast verður við þær aðferðir í tjáningu, handverki, tækni og stíl sem viðhafðar voru fyrir sextíu árum (um það leyti sem safnið var stofnað) og hugsjónir og ,,rómantískt ofstæki´´ (sbr. ummæli Ragnars í Smára um málverk Kjarvals) 20. aldarinnar höfð að leiðarljósi við val á viðfangsefni og meðferð efnis.

Skoðaðar verða m.a. tjáningaraðferðir og myndmál úr rússnesku byltingunni í byrjun 20. aldar, stúdentaóeirðunum í París 1968 og verk amerísku nunnunnar Coritu Kent – www.corita.org - sem var samtímamanneskja Andy Warhol. Auk þess verður horft til þess hvernig íslenskir hönnuðir og listamenn gerðu veggspjöld á svipuðum tíma. Notast verður að mestu við klippimyndir, tréskurð, lino-cut og silkiþrykk. Fyrirlesarar og ráðgjafar verða m.a. Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur) og Sigurður Atli Sigurðsson (Prent & vinir).

Verkefnið hefst með hálfs dags vinnustofu og verður síðan fylgt eftir með viðtölum/endurgjöf fagfólks, framleiðslu veggspjaldanna og sýningu á allri seríunni í húsakynnum Listasafns ASÍ og Alþýðusambands Íslands. Gefin verða út minnst 20 númeruð eintök af hverju veggspjaldi og fá höfundar helming þeirra til ráðstöfunar.

Verkefnið ÞAÐ ER GAMAN AÐ LIFA ber sama heiti og þekkt málverk eftir Kjarval sem var hluti af stofngjöf Ragnars í Smára til Alþýðusambandsins 17. júní 1961.
,,ÞAÐ ER GAMAN AÐ LIFA eftir Jóhannes S. Kjarval (1885-1972) er máluð í rigningu vestur á Snæfellsnesi 1946. Náttúran er dálítið drungaleg og veðurhorfur tvísýnar. Drengirnir í fjörunni vita vel hvað þeir vilja og það er ekki gaman að lifa fyrir það eitt að allt leikur í lyndi, heldur miklu fremur vegna þess að þeir þora að horfast í augu við hina tvísýnu veröld og eru ákveðnir í að bjarga henni.’’ – Lýsing fengin úr Nýju Helgafelli, 4. árg. 1959.Tilgangur verkefnisins er að virkja unga hönnuði og myndlistarfólk til að ,,horfast í augu við tvísýna veröld‘‘ túlka hana og tjá sig um það sem er að gerast í mannlegu samfélagi.

Markhópur verkefnisins er fólk sem lætur sig réttlætis- og baráttumál samtímans einhverju varða. Veggspjöldin verða til sölu og ætla má að bæði efni þeirra og gerð höfði til allra aldurshópa, bæði þeirra sem þekkja vel til baráttumála síðustu aldar og fortíðarinnar en einnig þeirra sem yngri eru og vilja leggja sitt af mörkum til að bjarga heiminum eins og hann horfir við þeim.

Með verkefninu hyggst safnið fanga tíðaranda dagsins í dag. Það hafa orðið stórkostlegar breytingar í samfélaginu á þeim 60 árum sem safnið hefur verið starfrækt. Með því að nota aðferðir sem voru við lýði fyrir sextíu árum kallast verkefnið á við fortíðina og segir jafnframt sögu samtímans og þess sem við honum blasir.

::::::::::::

Umsóknarferlið:
30. desember 2021: Auglýst eftir þátttakendum
18. janúar 2022: Skilafrestur rennur út á miðnætti
25. janúar 2022: Tilkynnt um hverjir veljast til þátttöku

Umsóknin:
Með umsókninni skal fylgja ferilskrá ásamt sýnishornum af 3-5 nýlegum verkum og upplýsingar um heimasíðu ef við á. Einnig er beðið um stutta hugleiðingu (hámark 200 orð) þar sem umsækjandi tilgreinir hvers vegna hann hefur áhuga á verkefninu.

Innsending gagna:
Umsókninni – ferilskrá, sýnishornum af verkum og hugleiðingu – skal skila í einu pdf-skjali.
Umsóknir skal senda til Listasafns ASÍ info@listasafnasi.is fyrir miðnætti þriðjudaginn 18. janúar 2022. Umsóknir skulu merktar ,,ÞAÐ ER GAMAN AÐ LIFA 2021‘‘. Fyrirspurnir má senda á sama netfang.
Umsóknir sem ekki uppfylla ofantalin skilyrði eða berast of seint verða ekki teknar til skoðunar.

Tímaáæltun verkefnisins:
25. janúar – 12. mars 2022 (opnun sýningar).

Þóknun til þátttakenda:
Þátttakendur í verkefninu fá greidda þóknun fyrir efnis- og framleiðslukostnaði. Þeir fá einnig prentuð minnst 10 eintök af eigin veggspjaldi.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page