Lestrarfélag Nýló: Jón B. K. Ransu
fimmtudagur, 28. nóvember 2024
Lestrarfélag Nýló: Jón B. K. Ransu
Verið hjartanlega velkomin á næsta lestrarkvöld Nýló sem haldið verður næsta fimmtudag þann 28. nóvember kl. 20:30 - 22:00 í Marshallhúsinu.
Lesefni: 5. kafli bókarinnar Hreinn hryllingur: Form og formleisur í samtímalist eftir Jón B. K. Ransu
Umsjón og val lesefnis: Jón B. K. Ransu
Varða: Lukas Bury
„Á lestrarkvöldinu ræðum við ákveðna þversögn í formgerð myndlistar sem er frekar áberandi í samtímalist, en er alls ekki bara bundin henni, en hún er þegar við löðumst að formgerð sem okkur finnst jafnframt ógeðfelld eða fráhrindandi, og kallast “þversögn aðlöðunar og andstyggðar (e. The Attraction / Repulsion Paradox).
Ég fjalla um þessa þversögn í bókinni Hreinn hryllingur: Form og formleysur í samtímalist, sem var gefin út árið 2019.
Til aflestrar hef ég valið fimmta kafla úr bókinni, sem heitir einmitt Þversögn hryllingsins, en fyrir þann kafla, í köflum 1-4, hef ég fjallað um úrkastlist (e. abject art), formleysu (e. formless) og handan heimsslita formgerð (e. Post Apocalyptic) sem einkennist af „hinu hræðilega (e. Eerie).
Sumt í fimmta kafla er í framhaldi af fyrri köflum en kaflar standa engu að síður sjálfstætt, hver fyrir sig, með ákveðið umfjöllunarefni eða þema. Þá er gott að hafa í huga, þegar þið lesið kaflann, að bók þessi er í grunninn rit um formfræði þar sem umrædd þversögn er í stóru hlutverki og þess vegna beinast upplýsingar í henni gjarnan að formgerð, formmyndunum eða formskynjun.
Einnig vil ég geta þess að í fyrsta kafla fjalla ég ítarlega um Ópið eftir Edvard Munch og vitna í það aftur og aftur í bókinni: Þar á meðal í fimmta kafla. Sama má segja um kvikmyndina Psycho og nokkrir fræðimenn sem ég styðst við í kaflanum hafa einnig komið til tals í fyrri köflum. Á lestrarkvöldinu get ég skýrt það frekar hvernig Ópið skipar lykilhlutverki í hryllingslist og tengist frekar mörgum þráðum hennar. Í fimmta kafla eru hins vegar verk eftir Francis Bacon, Ragnar Þórisson og Kristínu Gunnlaugsdóttur í aðalhlutverki.
Það vill svo til að heilmikil sýning á verkum eftir Francis Bacon opnaði í The National Portrait Gallery í London fyrir skömmu og gerði ég mér ferð til að skoða hana. Um leið heimsótti ég sýningu Tracey Emin í White Cube og verk Miru Lee í Túrbínusal Tate Modern. Allar þessar sýningar einkenndust af þversögn aðlöðunar og andstyggðar, og þess vegna, þegar ég var beðinn um að velja lesefni fyrir þetta kvöld, fannst mér ástæða að taka efnið fyrir.“
Til að fá aðgang að lesefninu er hægt að senda póst á nylo(hjá)nylo.is