A! Gjörningahátíð haldin í október
fimmtudagur, 21. september 2023
A! Gjörningahátíð haldin í október
A! Gjörningahátíð fer fram á Akureyri 5.-8. október næstkomandi. A! er fjögurra daga alþjóðleg gjörningahátíð sem haldin er árlega og nú í níunda sinn. Ókeypis er inn á alla viðburði.
Dómnefnd valdi verk úr hópi fjölbreyttra listamanna og eru gjörningar af öllum toga á dagskránni. Þátttakendur eru ungir og upprennandi listamenn, ásamt reyndum og vel þekktum gjörningalistamönnum. Að þessu sinni fara gjörningarnir fram í Listasafninu á Akureyri, Menningarhúsinu Hofi, Deiglunni og Mjólkurbúðinni.
Þátttakendur eru: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Curver Thoroddsen, Dustin Harvey, Hans-Henrik Suersaq Poulsen, Yuliana Palacios, Harpa Arnardóttir, Heiðdís Hólm Guðmundsdóttir, Kuluk Helms, Sigurður Guðmundsson, Tales Frey og Vídeólistahátíðin Heim.
Gjörningahátíðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Leikfélags Akureyrar, Menningarhússins Hofs, Myndlistarfélagsins, Gilfélagsins, Listnámsbrautar Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistamiðstöðvarinnar, Háskólans á Akureyri, RIFF og NAPA.