Anna Eyjólfsdóttir
Til formanns
Ég býð mig fram af heilum hug til áframhaldandi starfa sem formaður stjórnar SÍM næsta kjörtímabil.
SÍM er hagsmunafélag myndlistarfólks. SÍM hefur undir minni formennsku undanfarin 6 ár unnið markvisst að því að ná fram bættum kjörum fyrir myndlistarfólk. Ég mun leggja mig alla fram hér eftir sem hingað til og brenn í skinninu að halda áfram að berjast fyrir hagsmunamálum myndlistarfólks Formannsstarfið á hug minn allan og ég get beitt mér óskiptri fyrir þeim verkefnum sem fyrir liggja, stórum sem smáum.
Helstu stefnumál mín:
•Áframhaldandi uppbygging öflugs starfslaunakerfis.
•Listamiðstöð á Korpúlfsstöðum, skipulag og framtíð Korpúlfsstaða.
•Þróun og endurskoðun verkefnisins borgum listamönnum.
•Norrænt samstarf: efling samstarfs við norrænt myndlistarsvið (og Eystrasaltslöndin), ráðstefnan Myndlistarmaðurinn í fjölþjóðlegum nútíma – 2025, og Græn stefna SÍM er í samræmi við Samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál 2025–2030
Ég kem einnig til með að vinna áfram við að efla aðstöðu og auka tækifæri félagsmanna enn frekar, m.a.:
•Endurmenntun / Námskeiðahald / Fyrirlestrar
•Portfólíóviðtöl
•Vinnustofuprógram SÍM.
•Grasrót - Sýning ungra listamanna – 2025
•TORG Listamessa
•Hlöðuloftið sýningarsalur
•Suðurloftið fyrirlestrar/málþing og kaffihús
Ég bendi á að í minni stjórnartíð hefur verið tekið frumkvæðið og lagður grundvöllur að meirihluti framgreindra verkefna.
Hér á eftir vil ég ympra á helstu málefnum og baráttumálum sem SÍM vinnur að og ég hyggst leggja áherslu á næstu tvö árin.
Efling starfslaunakerfisins er eitt helsta baráttumál SÍM. Eitt fyrsta verkefni stjórnar SÍM undir minni forystu var að endurvekja baráttuna fyrir bættum starfslaunum listamanna. Sú barátta hefur skilað umtalsverðum árangri og hafa launin hækkað á þessum tíma úr 377.402 kr. á mánuði 538.000 kr á mánuði.
Stjórn BÍL og fulltrúar SÍM hafa síðastliðin sex ár unnið í samstarfi við ráðherra menningarmála drög að endurskoðun og eflingu starfslaunakerfis ríkisins. Þingsályktunartillaga sem byggir á þessu samstarfi hefur verið lögð fyrir Alþingi nú í vetur og bíður afgreiðslu.
Þegar Covid skall á árið 2020 varð fljótlega ljóst að faraldurinn hefði umtalsverð áhrif á afkomu og kjör listamanna. Allt sýningarstarf riðlaðist og starfsumhverfið lagðist á hliðina.
Til að bregðast við þessu hrinti stjórn SÍM af stað átaki til að kanna afkomu og kjör félagsmanna. Í fyrsta sinn í sögu SÍM voru sendar út kannanir til félagsmanna, alls þrjár, sem skiluðu mikilvægum upplýsingum. Í fyrsta sinn gat SÍM lagt áþreifanlegar tölulegar upplýsingar um hag félagsmanna fyrir ráðamenn. Þessar niðurstöður höfðu mikið að segja til að fá fram viðbótarfjárveitingar til listamanna vegna Covid, en einnig í baráttunni fyrir bættum starfslaunum.
Húsnæði - Vinnustofur – Sýningarrými. Fyrir sex árum var lítil starfsemi á Hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum. Formaður og stjórn SÍM sáu að hægt væri að starfrækja spennandi sýningarsal, með fjölbreytilega möguleika fyrir einka- og samsýningar, en mikill skortur var á stóru sýningarplássi sem listafólk hefði beinan aðgang að.
Torg listamessa - HLÖÐULOFTIÐ á Korpúlfsstaðir. Þegar ég tók við formennsku fyrir 6 árum sá ég hina miklu ónýttu möguleika Hlöðuloftsins á Korpúlfsstöðum sem sýningarrýmis, meðan mikill skortur var á sýningarrými fyrir myndlistarmenn. Ég sem formaður hef haft forgöngu um átak til að virkja staðinn sem eftirsóknarvert sýningarrými og listamiðstöð. Fyrsta skrefið var stofnun Torgs Listamessu í Reykjavík, fyrsta myndlistarmessu hérlendis, haustið 2018. Messan var haldin aftur haustið
2019, féll niður 2020 vegna Covid-19, en hefur síðan verið haldin árlega. Þess má geta að messan er stór sölu- og kynningarvettvangur fyrir þá sem taka þátt. Á sama tíma hefur það gerst að listamenn sækjast eftir að sýna í salnum, og hefur hann verið fullnýttur allt árið um kring síðustu ár og er nú bókaður tvö ár fram í tímann. Árið 2021 var suðurloftið endurhannað sem funda- og ráðstefnusalur og kaffihús fyrir félagsmenn.
Einn mikilvægasti ávinningur messunnar er sú kynning út í samfélagið sem hún hefur haft í för með sér. Við í stjórn SÍM finnum t.d. fyrir auknum skilningi og velvilja ráðamanna í kjölfar messunnar. Benda má á að þegar hefur verið ráðinn næsti sýningarstjóri Torgs - Paulina Kuhn, sýningarstjóri Centre of Polish Sculpture Oronsko í Póllandi.
Listamiðstöð á Korpúlfsstöðum. Borgarstjórn Reykjavíkur hefur samþykkt að Korpúlfsstaðir skuli verða listamiðstöð. Áætlað er að það gerist í áföngum á næstu 5 árum. Stefnumótun verkefnisins og hagsmunagæsla myndlistarinnar innan hins pólitíska borgarkerfis er viðkvæmt viðfangsefni. Framundan er afar mikilvæg vinna til að tryggja til framtíðarhlut myndlistarmanna innan þessarar miðstöðvar. Listamiðstöð á Korpúlfsstöðum er mikilvægt skref fyrir myndlist og aðrar listgreinar í landinu og mun efla aðstöðu listamanna með fundar- og sýningaraðstöðu. Mér finnst þetta, auk starfslaunasjóðsins, annað mikilvægasta verkefnið sem SÍM hefur staðið fyrir. Mikilvægt er að fylgja því eftir og verði ég áfram formaður stjórnar SÍM mun ég halda áfram að nýta reynslu mína og sambönd innan stjórnkerfis borgarinnar til að koma þessu verkefni í örugga höfn.
Borgum listamönnum er verkefni sem enn er í fullum gangi. Þegar ég tók við formennsku SÍM hafði nýverið unnist áfangasigur í verkefninu „Borgum listamönnum“, sem samtökin höfðu barist fyrir í áratugi. Eitt fyrsta verkefni okkar, stjórnarinnar, var að gera samninga við öll helstu opinber listasöfn landsins, og síðasta haust tókst samkomulag við Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Segja má að verkefnið sé komið í öruggan farveg þróunarferli.
Norrænt samstarf - Myndlistarmaðurinn í fjölþjóðlegum nútíma - 2025. Stjórn SÍM telur mikilvægt að efla menningarlega samvinnu milli Norðurlandanna, í því samhengi hefur stjórn SÍM haft frumkvæði að því að haldin verði samnorræn ráðstefna um norrænt myndlistarsvið og samvinnu og önnur helstu málefni okkar eins og að stofnað verði til löngu tímabærra Myndlistarverðlauna Norðurlandaráðs
Undirbúningsvinna er þegar hafin og verður ráðstefnan haldin hér á landi haustið 2025.
SÍM hefur tekið upp Græna stefnu í samræmi við Samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál 2025-2030
SíM Gallerí, Hafnarstræti. Aðgengi að sýningarsalnum hefur tekið breytingum frá árinu 2021. Nú er hægt er að loka á milli skrifstofurýmis og salarins. Þannig býðst listamönnum kostur á að halda sýningum opnum utan opnunartíma skrifstofu SÍM, svo sem um kvöld og helgar.
Afmælissýning Hafnarstrætis. Í tilefni af 200 ára sögu hússins verður haldin myndlistarsýning með sögulegu ívafi í september 2024.
Listaverkauppboð SÍM: Söfnun fyrir bættum lýsingarbúnaði á Hlöðuloftið. SÍM hafa borist allnokkur listaverk að gjöf fyrir söfnun SÍM til að fjármagna kaup á SÍM ljósabúnaði fyrir sýningarsalinn á Hlöðuloftinu. Þegar Covid skall á varð að fresta uppboði, síðan hafa önnur atvik valdið töfum. Stefna okkar er sú að halda vefuppboð í nóvember 2024.
Árshátíð SÍM hafði ekki verið haldin árum saman, en í vor ákvað stjórnin að endurvekja þennan sið. Skipuð var skemmtinefnd sem úbjó dagskrá með þekktum tónlistar- og myndlistarmönnum ásamt mat og drykk. Hátíðin var haldin 24. febrúar á Korpúlfsstöðum og var hún mjög vel heppnuð. Í framhaldinu er stefnt á að árshátíð SÍM verði árlegur viðburður.
Vefsíður, vefmiðlar. Árið 2019 var hönnuð og sett í loftið sérstök vefsíða fyrir gestavinnustofur SÍM/ SÍM Residency. Árið 2020, hófst hönnun nýrrar vefsíðu SÍM og þjónar hún þörfum samtakanna mun betur en sú gamla. Heimasíðan er mjög gagnleg fyrir félagsmenn, en þar er hægt að finna upplysingar um vinnustofur erlendis, samkeppnir sem eru í gangi, gjaldskrá og sem ogfleiri upplýsingar.
Þess utan hefur verið mótuð stefna um innslög SÍM á samfélagsmiðla, Fésbók og Instagram.
Fréttabréf SÍM tengist vefsíðunni og kemur nú út einu sinni í viku, alla fimmtudaga, og hefur því verið vel tekið af félagsmönnum. Félagsmenn auglýsa þar opnanir sýninga og SÍM birtir þar fréttatilkynningar um það helsta sem er á döfinni hverju sinni.
Vefsíðan arkiv.is var hætt að þjóna tilgangi sínum, þannig að síðastliðinn vetur hófst undirbúningur að lagfæringum á henni, og mun hún hljóta nýtt nafn „LISTAMANNATAL“ – Icelandic Artists og kemst von bráðar í gagnið.
NÁMSKEIÐ - endurmenntun. Bryddað hefur verið upp á þeirri nýjung að halda námskeið í húsnæði SÍM á Korpúlfsstöðum og í Hafnarstræti og verða fyrstu námskeiðin haldin í haust.
Árið 2021 fengu Textilfélagið og Leirlistarfélagið hvort fyrir sig sérstaka aðstöðu á Korpúlfsstöðum til að halda fagleg námskeið. Námskeiðin eru opin og ætluð bæði félagsmönnum og almenningi. Þessi námskeið eru ætíð auglýst sérstaklega.
Námskeið í “Sacred Art of Geometry” verður haldið í haust í samvinnu við Akademíu Skynjunarinnar. Kennari er Daniel Docherty frá SAOG Studios, Emerson College í Englandi. Dagsetning verður auglýst síðar.
Námskeið í steinhöggi verður haldið næsta vetur í samvinnu Akademíu Skynjunarinnar, Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík og SÍM, sem Kestutis Musteikis, myndhöggvari frá Vilnius í Litháen mun leiða.
Portfólíóviðtöl hafa verið haldin einu sinni til tvisvar á ári undanfarin ár.
SÍM í samstarfi við Akademíu skynjunarinnar. Í því samhengi stóð Pari Stave fyrir því að bjóða félagsmönnum upp á að hitta erlenda listfræðinga og sýningarstjóra í möppu/portfólíó-viðtöl. Tíu erlendir fræðimenn komu að verkefninu og yfir 200 félagsmönnum gafst kostur á að hitta þá í viðtölum.
Rekstrarfélag SÍM var aðskilið frá eiginlegum rekstri SÍM frá árinu 2021. Ingibjörg Jóhannsdóttir fyrrverandi framkvæmdastjóri SÍM stýrir nú Rekstrarfélaginum. Félagið annast öll húsnæðismál á vegum samtakanna, sem felur í sér að finna og leigja vinnustofur fyrir félagsmenn og gestaíbúðir erlendis, s.s. í Berlín og Aþenu.
SÍM leigir nú húsnæði undir vinnustofur félagsmanna í níu húsum á stór-höfuðborgarsvæðinu. Miklar breytingar hafa orðið á fasteigna- og leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu sem hafa bein áhrif á vinnustofuprógram SÍM. Brýn þörf er á að endurskoða vinnustofuprógrammið og leita nýrra leiða. Undirbúningur er hafinn, en mikið starf fyrir höndum.
SÍM residency er í höndum Martinas Petrekis og sér hann um þann rekstur. Skrifstofa SÍM eru í höndum Lísu Bjarkar Attensperge. Hún vinnur í náinni samvinnu við formann og gætir hagsmuna félagsmanna. Auk þess sér skrifstofan um Artótekið, Mugg og margt fleirra.
World Art Day hefur verið tengdur við Mánuð myndlistar frá árinu 2021, þegar verkefni þess færðust yfir á aprílmánuð. Fyrsta verkefni WAD var að myndlistarmenn áttu þess kost að gera vídeó um myndlistarstarf sitt sem SÍM dreifði. Í annað sinn var listamönnum frá Úkraínu boðið að senda vídeó með upplýsingum um líf sitt og list í tenglsum við innrás Rússa í Úkraínu. Þriðja verkefnið er samvinnuverkefni við nemendur af erlendum uppruna á íslenskubraut í Tæknimenntaskólanum. Elísabet Stefánsdóttir myndlistarmaður leiðir verkefnið sem er unnið út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Að lokum vil ég segja að ég er reiðubúin að takast á við næsta kjörtímabil veiti félagsmenn mér umboð til þess með atkvæðum sínum. Ég finn mig knúna til að klára þau mál sem ég hef hafið og unnið af alefli að í minni formannstíð.
Með vinsemd og virðingu,
Anna Eyjólfs
Ef óskað er eftir upplýsingum um feril minn vil ég benda á vefsíðu mína: www.annaeyjolfs.is