top of page

Samtvinna í Gallerí Gróttu

508A4884.JPG

fimmtudagur, 17. ágúst 2023

Samtvinna í Gallerí Gróttu

Unnur Óttarsdóttir opnar myndlistarsýninguna Samtvinna fimmtudaginn 24. ágúst kl. 17 í Gallerí Gróttu Eiðistorgi, Seltjarnarnesi. Sýningin stendur yfir til 16. september. Opið er á afgreiðslutíma safnsins kl 10.00–18.30 virka daga nema föstudaga frá 10-17 og laugardaga kl 11.00-14.00 (lokað er laugardaginn 26. ágúst).

Straumar berast, mætast og aðskiljast. Vegir nálgast, mætast og fjarlægjast. Sambönd sameina innra og ytra landslag. Þræðir samtvinnast og byggja upp heildstætt vefverk. Tengingar frá einum tíma til annars flétta saman tilveruna. Langtímasambönd vefja lífið saman. Skörun andstæðna skapa nýja vídd. Þverfagleg nálgun býr til nýja heima. Samtenging andstæðra hliða einstaklings stuðlar að heilsteyptum persónuleika.

Í dáleiðslu sveiflast pendúllinn til hægri og vinstri og augun fylgja. Í EMDR meðferð þá fylgja augun fingri sálfræðingsins sem hreyfist til hægri og vinstri. Í listmeðferð tengjast orð og mynd. Í námslistmeðferð tengjast vitsmunir og tilfinningar.

Á sýningunni Samtvinna myndast tengingar á ýmsa vegu. Á milli hægri og vinstri handa, á milli tímaskeiða, á milli fólks, á milli kynslóða, á milli blaðsíðna í speglabókverki og svo mætti lengi telja. Málverk og ljósmyndir tengjast. Á sýningunni fjallar Unnur um tengsl við nána samferðamenn frá ýmsum tímabilum. Þannig fléttar hún tengslavef kynslóðanna. Teikningar sem gerðar hafa verið af ýmsum listamönnum í speglabókarrými Unnar verða einnig til sýnis.

Boðið verður upp á þátttöku í rannsókn sem tekur um hálftíma og felur í sér samtal, teikniæfingu og útfyllingu spurningalista. Áhugasamir vinsamlegast sendið Unni tölvupóst á unnur@unnurottarsdottir.com til að fá nánari upplýsingar.

Unnur Óttarsdóttir (1962) er starfandi myndlistarmaður og listmeðferðarfræðingur. Hún lauk MA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2015 og hlaut doktorsgráðu í listmeðferð frá University of Hertfordshire árið 2006. Í listaverkum sínum vinnur Unnur með margvíslega miðla, svo sem málverk, prent, spegla, innsetningar, gjörninga og þátttöku áhorfenda. Unnur hefur starfað við listmeðferð í yfir 30 ár og hefur hún kennt fagið í ýmsum háskólum á Íslandi og erlendis ásamt því að stunda rannsóknir sem hafa sýnt að teikningar eru áhrifaríkar til að efla minni. Unnur hefur jafnframt birt ritrýndar greinar og bókarkafla og flutt fyrirlestra á alþjóðavettvangi um myndlist, listmeðferð, minni og teiknun. Listaverk Unnar sem oft tengja saman myndlist og listmeðferð hafa verið sýnd á sam- og einkasýningum í ýmsum galleríum og söfnum á Íslandi og á alþjóðavettvangi, m.a. í Listasafninu á Akureyri, Listasafninu á Ísafirði, Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Færeyja, Edsvik Kunstall í Stokkhólmi og Lorgo das Artes í Brasilíu.

www.unnurottarsdottir.art

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page