top of page

Sýningaropnun í Hafnarhúsi - Erró: Skörp skæri

508A4884.JPG

fimmtudagur, 26. janúar 2023

Sýningaropnun í Hafnarhúsi - Erró: Skörp skæri

Laugardaginn 28. janúar kl. 15.00 verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsi sýningin Erró: Skörp skæri. Á sýningunni er fjöldi verka þar á meðal stór hluti yfir eitthundrað klippimynda sem listamaðurinn færði Listasafni Reykjavíkur á síðasta ári. Verkin eru unnin á ýmsum tímum og eru nokkurskonar lykill að mörgum að þekktustu verkum listamannsins. Sýningin gefur góða innsýn í það hvernig hugmynd þróast frá samklippi og í aðra miðla svo sem málverk, flísaverk og ýmiskonar prent.

Á sýningunni er einnig að finna glæsilega útgáfu af einu þekktasta verk Errós, Andlitavíðátta frá 1992 sem hér birtist sem veggmynd úr handmáluðum keramikflísum sem ætluð er framtíðarstaðsetning á Errósetri sem hugmyndir eru uppi um að koma á laggirnar á Kirkjubæjarklaustri. Erró ólst upp á Kirkjubæjarklaustri og tók þar sín fyrstu skref í myndlist. Flísaverk á borð við það sem hér er sýnt eru víða um Evrópu en hér á landi þekkja margir verk sem blasir við öllum sem koma til landsins um Leifsstöð, flísaverk á Breiðholtslaug og verk sem lengi var í Kringlunni. Öll eru þessi verk dæmi um það hvernig klippimyndirnar taka sér önnur form.

Titill sýningarinnar Skörp skæri vísar beint til verkfæris listamannsins og vinnunnar við að klippa til fundið prentefni en einnig til þeirrar skerpu sem einkennir verk Errós og rýni hans og skarpa greiningu á samtímanum, jafnt offlæði myndefnis neyslusamfélagsins og hömlulaust upplýsingaflóð samtímans.
Erró (f. 1932, Ólafsvík) býr og starfar í París, þangað sem hann flutti árið 1956 með viðkomu í Noregi, Þýskalandi og Ítalíu. Erró var meðal fulltrúa evrópsku framúrstefnunnar á sjöunda áratugnum og þátttakandi í hreyfingum sem kenndar eru við uppákomur og tilraunakvikmyndir. Framlag hans til endurnýjunar fíguratífs myndmáls og hins svokallaða frásagarmálverks festi hann í sessi í evrópskri listasögu en þar skipa stóran sess málverk sem byggjast á frásögn og samklippi.

Sýningarstjóri er Becky Forsythe og það er Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur og bróðir listamannsins, sem opnar sýninguna.

Skörp skæri mun standa yfir í heilt ár og verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá í tengslum við sýninguna og sem dæmi verður starfrækt klippismiðja í Hafnarhúsi þar sem gestir geta komið og spreytt sig á listformi klippimynda. Á Safnanótt þann 3. febrúar verður boðið upp á leiðsagnir sýningarstjóra og klippismiðju þar sem öll fjölskyldan getur tekið þátt.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page