top of page

Listasafn Íslands: Í hálfum hljóðum - Birgir Snæbjörn Birgisson

508A4884.JPG

fimmtudagur, 24. febrúar 2022

Listasafn Íslands: Í hálfum hljóðum - Birgir Snæbjörn Birgisson

Ný sýning í Listasafni Íslands, laugardaginn 26. febrúar klukkan 15:00

Í hálfum hljóðum
Birgir Snæbjörn Birgisson
26.2. – 19.6. 2022


Í HÁLFUM HLJÓÐUM

Sýningin Í hálfum hljóðum samanstendur af verkum sem myndlistarmaðurinn Birgir Snæbjörn Birgisson hefur unnið á undanförnum árum, 2015–2022. Í þessum verkum tekst listamaðurinn á við miðlæg pólitísk, samfélagsleg og söguleg málefni í daglegu lífi okkar, með pensilinn að vopni.

Hér er sem sagt um að ræða – bæði í margvíslegum stærri verkaröðum, svo sem Von og Réttlæti og í stökum verkum eins og myndinni Schadenfreude sem byggir á texta – málverk sem eru pólitísk eins og þegar dregnar eru línur milli punkta á sviðum hins persónulega og hins pólitíska, þetta eru málverk sem sýna persónulega vegferð, og þetta eru málverk sem eru staðbundin og fastmótuð en raungera fortíðina, nútíðina og sjóndeildarhringa framtíðarinnar.
Það er hér sem við getum staðsett hugboðið og komið auga á tilfinningarótið þar sem málverk Birgis Snæbjörns Birgissonar ná á sinn fínlega hátt sláandi tengingu við helstu þungavigtarmálefni samtímans. Þessi verk eru gerð af snilldarlegum léttleika, rétt eins og liturinn sé í þann veginn að dofna alveg, hverfa, en þó öðlast þau skriðþunga eftir því sem maður kemur nær þeim, og því lengur sem maður dvelur í návist þeirra. Óhætt er að fullyrða að hér tvinnast innihald og form saman, bjóða hvort öðru birginn og stangast á svo úr verður eitthvað alveg einstakt, eitthvað óvænt, enn ekki fyrirséð.

Ennfremur er það hér sem málverkið og pólitísk, samfélagsleg og söguleg málefni mætast, bæði í blíðuhótum og þrætum. Þetta er óþyrmilega augljóst í verkaröð sem tengist Samherjahneykslinu. Maður verður undireins meðvitaður um þessi gríðarstóru skip, vandamálin sem fyrirtækið hefur valdið þarna suður í Afríku, einskæran groddaskapinn að verki þar sem þúsundir tonna af stáli eru á ferð, og á sama augnabliki stendur maður frammi fyrir listaverki, olíu á pappír, sem gert er með örléttri snertingu litarins, hikandi hreyfingu fram og til baka. Maður áttar sig á því hvernig hvert og eitt þessara málverka er hér um bil að verða að einhverjum stað, vettvangi sem gefur og tekur, ýtir og togar – listaverki sem er einstætt í mætti sínum og heilindum. Hjá Birgi snýst verkið alltaf um listina, list þess sem er næstum því.

Þegar öllu er á botninn hvolft sjáum við hér málverk sem virðast hafa sakleysislegt yfirbragð en vinna á og ná að tefla saman meintum andstæðum, sameina fegurð og hrottaskap, og hrista upp í okkur og ögra en jafnframt næra okkur, ja, kannski ekki á visku en aðferðum til að vera og eiga okkur tilvist í veröldinni, bæði ein með sjálfum okkur og saman – með öllum þeim átökum og andstæðum sem tilheyra, en einnig ánægjuefnum og ítarlegum frásögnum.

Og já, eitt enn, spurningin sem öllu máli skiptir: Af hverju Í hálfum hljóðum?
Ja, það er í þeim sem hlutirnir gerast, það eru þau sem eru greypt í kjarna þess órofna samhengis sem sést í málverkum Birgis Snæbjörns Birgissonar: það eru litlu, næstum hljóðlausu bendingarnar sem kveikja gífurleg hughrif og skapa sterka nærveru.

Sýningarstjóri Mika Hannula


Hægt er að bóka viðtöl við listamanninn og/eða sýningarstjóra sýningarinnar hjá Guðrúnu í síma 621-9614 eða gudrun@listasafn.is

Mynd:
Trú, 2020
Birgir Snæbjörn Birgsson (f.1966)

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page