top of page

Gallerí Skilti: Hjáform / By form - Sigurður Árni Sigurðsson

508A4884.JPG

þriðjudagur, 21. desember 2021

Gallerí Skilti: Hjáform / By form - Sigurður Árni Sigurðsson

Hjáform
Sigurður Árni Sigurðsson
21.12. 2021–15.06. 2022

Þriðjudaginn 21. desember 2021 kl: 17.00–19.00, opnar sýning Sigurðar Árna Sigurðssonar „Hjáform“ á Gallerí Skilti, Dugguvogi 43, 104 Reykjavík. https://www.instagram.com/galleryskilti/

Listaverkið „Hjáform“ sem Sigurður Árni sýnir á Gallerí Skilti er upplýst verk úr plexígleri. Það má segja að hann pakki skiltinu inn í gataðan plexígler-hjúp sem varpar lituðum skugga á skiltið.

Að venju er opnun sýningarinnar á vetrarsólstöðum, stysta degi ársins 21. desember og stendur sýningin yfir fram að sumarsólstöðum í júní. Stöðug lýsing er á verkinu en dagsbirta og árstíðamunur breyta ásýnd þess. Utanaðkomandi birtu breyting, jafnvel bílljós ökumanna og kvöldsólin hefur áhrif á verkið og gefur því stöðuga endurnýjun og síbreytileika.

„Sigurður Árni hefur mátað hugtakið „hjáform“ við áráttu sína fyrir skuggum. Rétt eins og íslensk tunga á orð líkt og hjáleið, hjáfræði og hjálit, má vel skilja orðið hjáform sem viðbót við endurkast, speglun eða skugga einhvers efnilegs fyrirbæris. Enn lengra mætti ef til vill seilast með því að líta á málverk af hverju sem vera skal sem hjáform fyrirmyndarinnar. Hjáform í verkum Sigurðar Árna eru ýmist máluð af honum sjálfum eða skilin eftir sem eyða á máluðum fleti. Þau birtast ennfremur í marglaga teikningum hans á gegnsæjan pappír, fundnum ljósmyndakortum sem hann spinnur áfram í teikningu, ljósmyndaverkum, bókverkum og jafnvel skúlptúrum og innsetningum. Hjáformin framkallast í rýminu í kringum lágmyndir hans úr áli, gleri og plexígleri. Þessi ólíka nálgun rennur gjarnan saman í málverkum sem virka eins og lágmyndir eða þrívíðum verkum sem líta út fyrir að vera máluð. Blekkingarleikurinn dregur enn fram eiginleika í skynjun okkar, takmörk þess sem við greinum og hina takmarkalausu skáldskapargáfu sem okkur er í brjóst borin til þess að fylla í eyðurnar. Hér hefur listamaðurinn opnað á samtal langt umfram stað- og tímabundna landslagshefð og kallast á við málverkahefðina allt frá upphafi þeirrar sögu. Málverkið er og verður örþunnt yfirborð þar sem engu að síður er hægt að gefa til kynna allar þær víddir efnisheims og hugarheims sem hugsast getur.“

Brot úr texta Markúsar Þórs Andréssonar, „ÓraVídd“

Sigurður Árni Sigurðsson hefur starfað sem myndlistarmaður bæði í Reykjavík og í Frakklandi frá því að hann lauk námi frá Institut des Hautes Études en Art Plastiques í París árið 1991. Hann hefur haldið tugi einkasýninga og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. Verk eftir Sigurð Árna er að finna í öllum helstu listasöfnum á Íslandi sem og í opinberum söfnum og einkasöfnum víða í Evrópu. Af stærri opinberum verkum má nefna útilistaverkið „Sólalda“ sem hann gerði fyrir Sultartangavirkjun og var afhjúpað árið 2000, verkið “Samhengi” var sett upp í Landsbanka Íslands í Reykjavík 2005, glerverkið “Ljós í skugga” á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 2006 og útilistaverkið „L´Eloge de la Nature“ er staðsett í bænum Loupian í Suður-Frakklandi 2011. Sigurður Árni var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum á Ítalíu árið 1999, verk eftir hann var valið sem táknmynd Reykjavíkur þegar borgin var menningarborg Evrópu árið 2000 og á síðasta ári var opnuð yfirlitssýningu á verkum Sigurðar Árna þar sem farið var yfir feril listamannsins frá upphafi til dagsins í dag í Listasafni Reykjavíkur. sigurdurarni.com

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page