top of page

Gabríela Friðriksdóttir opnar sýninguna Ár áttunnar í Portfolio galleri

508A4884.JPG

fimmtudagur, 7. mars 2024

Gabríela Friðriksdóttir opnar sýninguna Ár áttunnar í Portfolio galleri

Gabríela Friðriksdóttir opnar sýninguna Ár áttunnar næstkomandi laugardag, 9. mars kl 16:00 í Portfolio gallerí.

Gabríela Friðriksdóttir sýnir 11 ný málverk, unnin á síðustu mánuðum, í Portfolio galleri Hverfisgötu 71.
Gabríela er þekkt fyrir að notast við ýmsan efnivið í verkum sínum, fyrir sýninguna Ár áttunnar vinnur hún málverk í olíulakk & akrýlmálningu á MDF.

Gabríela Friðriksdóttir (1971) vinnur gjarnan þvert á listform inn í innsetningar, þar sem óhefðbundinn efniviður sameinast listmiðlum eins og teikningum, málverki, skúlptúr og hreyfimyndum. Í verkunum birtast jafnan súrrealískir smáheimar í einstöku myndmáli á mörkum náttúru og draumkenndrar fantasíu í stöðugum umskiptum, með vísanir í táknfræði og andleg kerfi sem framsett eru í hennar eigin goðafræði.

Gabríela hefur haldið fjölda einkasýninga og verið valin á samsýningar bæði hér á landi og erlendis. Sýningar hennar hafa meðal annars verið í Migros Museum í Zürich 2006, Prospectif cinéma í Pompidou-miðstöðinni í París 2007, Museum of Contemporary Art í Tókýó 2010, Schirn Kunsthalle í Frankfurt 2011 og Lyon tvíæringnum 2013. Gabríela var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2005 með verkið „Versations Tetralógía“. Verk eftir hana eru í eigu einkasafna og safneigna víða um heim.

Gabríela útskrifaðist af skúlptúrdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands vorið 1997 og stundaði nám við AVU akademíuna í Prag veturinn 1998. Á myndlistarferli sínum hefur hún fengið ýmsa styrki og viðurkenningar; námstyrkur frá Tékkneska ríkinu 1998, styrkur úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur 2001, Heiðursverðlaun Myndstefs 2005 og tilnefning til Ars Fennica, finnsku myndlistarverðlaunanna 2013. Gabríela hlaut starfslaun úr Launasjóði myndlistarmanna 2000, 2002, 2004, 2015 og 2022. Hún býr og starfar í Reykjavík.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page