top of page

Framtíðarbókasafnið á Hönnunarmars

508A4884.JPG

fimmtudagur, 4. maí 2023

Framtíðarbókasafnið á Hönnunarmars

Á Hönnunarmars verður sett upp áhugaverð sýning um umbreytingu bókasafnsins í Grófarhúsi. Þar mun gefast einstakt tækifæri til að gægjast inn í framtíðina og sjá hvernig verkefninu miðar áfram. Síðustu mánuði hafa verið haldnar samráðsvinnustofur þar sem starfsfólk, notendur og hagaðilar hafa fengið að rýna til gagns og hafa áhrif á hönnun bókasafnsins. Á sýningunni gefst borgarbúum einstakt tækifæri til að skoða vandað módel af húsinu, ræða við þau sem að verkinu koma, taka virkan þátt í fjölbreyttum viðburðum og hafa þannig áhrif á þessa spennandi framkvæmd.

Það er borgarinnar að búa til samfélagslega umgjörð sem veitir fólki jöfn tækifæri. Við sem samfélag verðum að bjóða fólki upp á almenningsrými til að koma saman á, stað þar sem hægt er að jafna aðstöðumun og hver og einn getur tekið þátt á eigin forsendum.
Hönnunarteymið sem stendur að umbreytingu Grófarhúss hefur unnið tillögur að þessari umgjörð - bókasafni sem við getum verið stolt af og mun lýsa sem viti í borgarlandslaginu.

Við sjáum fyrir okkur stað sem veitir öllum borgarbúum tækifæri til að koma saman, sækja þjónustu, nýta fyrirmyndar aðstöðu og sækja fjölbreytta viðburði - ókeypis. Sannkallað samfélagsbókasafn á besta stað í bænum þar sem nóg pláss er fyrir fólk, deilihagkerfið blómstrar og eitthvað nýtt verður til!

Staðsetning sýningarinnar er í húsnæðinu á vesturhlið Grófarhúss, sem verður hluti af nýju og umbreyttu bókasafni við Tryggvagötu 15.

Sýningin stendur frá 4. - 7. maí og er opin miðvikudag 18:00 – 21:00, fimmtudag 16:00 – 21:00, föstudag frá 11:00 – 21:00 og um helgina frá 12:00 – 17:00.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page