top of page

Þjóðminjasafn Íslands: Straumnes - Marínó Thorlacius og Þar sem rósir spruttu í snjó - Vassilis Triantis

508A4884.JPG

föstudagur, 21. janúar 2022

Þjóðminjasafn Íslands: Straumnes - Marínó Thorlacius og Þar sem rósir spruttu í snjó - Vassilis Triantis

Straumnes
Marinó Thorlacius
22.1.2022 - 1.5.2022, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu
Straumnesfjall stendur milli Aðalvíkur í suðri og Rekavíkur í norðri og er nú hluti af friðlandinu á Hornströndum. Þar byggði og starfrækti bandaríski herinn ratsjárstöð á tímum kalda stríðsins. Stöðin starfaði aðeins í tæp þrjú ár, frá árinu 1958 til 1961. Hreinsun á fjallinu og nærliggjandi svæðum var framkvæmd árið 1991 í samstarfi hersins og Íslendinga þó enn megi sjá greinileg ummerki um þessa starfsemi á fjallinu. Sýningin Straumnes eru hluti af dagskrá Ljósmyndahátíðar Íslands.

Ljósmyndarinn Marínó Thorlacius ljósmyndaði svæðið árin 2015 og 2019 og deilir hér með okkur sýn sinni á það sem enn stendur af ratsjárstöðinni við ysta haf. Ægifegurð landsins og síbreytilegt veðrið eru bakgrunnur mynda sem sýna leifarnar af því sem var. Þegar þokunni sem gjarna hangir yfir léttir og birtan opnar sýn yfir sléttan fjallstoppinn má sjá steypuklumpa liggja á víð og dreif. Spýtnarusl og járn hálfgrafið í fjallsbrúninni er eins og staðfesting á þeirri sögu að stöðinni hafi verið rutt fram af fjallinu. Eru þetta ummerki um mengunarslys eða eru þetta menningarsögulegar rústir?

Það hefur verið þrekraun að byggja og þjónusta ratsjárstöð á þessum afskekkta stað, enda gafst herinn fljótlega upp. Ólgandi hafið 400 metra fyrir neðan fjallsbrúnina, varpar upp hljóðmynd af þeim takmörkum sem náttúran setur staðnum og þeim sem þar dvöldu. Maðurinn má sín lítils gegn náttúruöflunum á Straumnesfjalli.

Marinó Thorlacius sýndi ljósmyndir sínar fyrst árið 2004 og hefur síðan starfað við ljósmyndum. Hann vinnur jöfnum höndum að listrænum verkefnum og auglýsingaljósmyndun. Oft er hann í nánu samstarfi við listamenn og hönnuði og mótar með þeim myndheim verkefnanna. Myndir hans hafa birst í innlendum og erlendum tímaritum og á sýningum. Marinó er alinn upp í Örlygshöfn við Patreksfjörð og býr og starfar til skiptis í Reykjavík og á bernskuslóðum.


Þar sem rósir spruttu í snjó
Vassilis Triantis
22.1.2022 - 1.5.2022, Veggur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu
Þar sem rósir spruttu í snjó, sýning á ljósmyndum Vassilis Triantis. Sýningin er samsett úr ljósmyndum Vassilis sjálfs og myndum úr fjölskyldualbúmi tengdaforeldra Vassilis, þeirra Ástu og Gústa sem lengi voru rósabændur í Laugarási í Biskupstungum. Sýningin er virðingarvottur við líf og starf þeirra hjóna og endurspeglar minningar um rósir sem spruttu í snjó.

Vassilis Triantis er fæddur á Grikklandi en býr og starfar í Hollandi. Hann sótti sér menntun í líffræði en starfar nú að rannsóknum í líffræði og ljósmyndun jöfnum höndum. Hann hefur tekið þátt í sýningum víða og hlotið viðurkenningar fyrir verk sín.

Vegna aðstæðna verður ekki um formlega opnun að ræða heldur bjóðum við gestum ókeypis aðgang á opnunardegi, laugardaginn 22. janúar frá 10 – 17.
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page